Enski boltinn

Houllier biðst afsökunar: Var sagt í gríni

Elvar Geir Magnússon skrifar

„Ef það er eitthvað lið sem ég vil tapa fyrir 3-0 þá er það Liverpool á Anfield," sagði Gerard Houllier, knattspyrnustjóri Aston Villa, eftir að lið hans tapaði illa síðasta mánudag. Þessi ummæli hans féllu í grýttan jarðveg hjá stuðningsmönnum Villa.

Houllier reyndi í miðri viku að útskýra þessi ummæli og sagði að þau hefðu verið sögð í gríni. Hann ákvað þó í dag að biðjast afsökunar á orðum sínum enda stjarnfræðilega dapurt grín.

„Staðreyndin er sú að þetta tap var enn erfiðara fyrir mig að kyngja því þetta var Liverpool. Ef stuðningsmenn halda að ég hafi sagt þetta til að særa þá verð ég að biðjast afsökunar því það var ekki hugsunin," sagði Houllier.

„Ég sé eftir því að hafa sagt þetta og eina sem ég get gert núna er að biðjast afsökunar."

Aston Villa er í slæmum málum í ensku úrvalsdeildinni, aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Liðið mætir WBA um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×