Fótbolti

Íhugar mótframboð gegn Blatter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chung Mong-joon með Franz Beckenbauer.
Chung Mong-joon með Franz Beckenbauer. Nordic Photos / Getty Images
Suður-Kóreumaðurinn Chung Mong-joon, varaforseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, íhugar nú mótframboð gegn Sepp Blatter, núverandi formanni, þegar formannskjör fer fram hjá sambandinu í maí næstkomandi.

Chung er einn átta varaforseta FIFA og einn sá mest áberandi. Fjölskylda hans eru meðal stofnenda Hyundai-samsteypunnar.

Hann sagði á ráðstefnu í Lundúnum nú í vikunni að það væri hollt fyrir FIFA að fá samkeppni í formannskjörinu og útilokaði ekki að hann muni sjálfur bjóða sig fram.

Í desember verður ákveðið hvar HM í knattspyru verður haldið árin 2018 og 2022. Chung sagði að sú ákvörðun gæti haft áhrif á „andrúmsloftið" í formannskjörinu í vor.

Blatter hefur einn lýst því yfir að hann muni bjóða sig fram í vor. Hann tók við formannsembættinu af Joao Havelange árið 1998 eftir að hafa haft betur í hörðum slag gegn Svíanum Lennart Johannsson.

Hann fékk mótframboð í formannskjörinu árið 2002 en bauð sig einn fram fimm árum síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×