Enski boltinn

Terry ráðlagt að halda kjafti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Fjölmiðlafulltrúi John Terry hefur ráðlagt leikmanninum að tjá sig alls ekki við fjölmiðla um kynlífshneykslið, sem skekur líf hans þessa dagana, fyrr en hann hafi rætt málin við Fabio Capello, landsliðsþjálfara Englands.

Capello er væntanlegur til Englands á fimmtudag og hann segist vita allt um málið. Hann ætlar að öðru leyti ekki að tjá sig um málið fyrr en hann hefur fundað með Terry á föstudag.

Háværar raddir eru uppi um að það verði að svipta Terry fyrirliðatign sinni hjá landsliðinu í kjölfar hneykslisins. Terry hélt framhjá eiginkonu sinni með unnustu Wayne Bridge sem einnig er í enska landsliðinu.

Einhverjir fjölmiðlar greindu svo frá því í dag að Terry myndi fá frí hjá Chelsea til þess að fljúga til Dubai í von um að bjarga hjónabandi sínu.

Þangað hefur eiginkona Terry flúið ásamt tvíburabörnum þeirra en hún er sögð vilja skilnað frá leikmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×