Enski boltinn

Fjölmiðlar: Rooney launahæsti leikmaðurinn í sögu United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Nordic Photos / Getty Images
Enskir fjölmiðlar eru nú að keppast við að segja fréttir af Wayne Rooney og nýja samningi hans við Manchester United.

Rooney skrifaði í morgun undir nýjan fimm ára samning við félagið sem kom öllum knattspyrnuheiminum í opna skjöldu.

Fyrr í vikunni höfðu bæði Rooney og Sir Alex Ferguson, stjóri United, staðfest að Rooney vildi fara. Ferguson sagði þá að félagið hafi verið reiðubúið að gera hann að launahæsta leikmanni Englands.

Rooney var samkvæmt gamla samningnum með 90 þúsund pund í vikulaun, miðað við það sem fram hefur komið í fjölmiðlum.

Samningurinn sem hann hafnaði var með grunnlaun upp á 110 þúsund pund auk myndarlegra aukagreiðslna sem hefðu híft meðaltalsvikulaun hans upp í 150 þúsund pund.

Það er meira en Cristiano Ronaldo fékk á sínum tíma og Rio Ferdinand er með í dag.

En nú er verið að greina frá því að sá samningur sem Rooney skrifaði undir í morgun sé meira virði og að hann hafi nánast tvöfaldast í launum. Hann sé nú að fá allt að 180 þúsund punda í vikulaun.

Ef það er rétt er hann langlaunahæsti leikmaður í sögu félagsins.

Fréttir í vikunni hafa gefið í skyn að Rooney og umboðsmaður hans hafi farið fram á það við önnur félög að hann fengi 250 þúsund pund í vasann í hverri viku - eftir skatt. Hann var þá helst orðaður við Manchester City, Chelsea og Real Madrid.

Auk þessa alls þénar Rooney mikið á samningi sínum við styrktaraðila og hvergi meira en hjá íþróttavöruframleiðandanum Nike.

„Rooney hefur alltaf verið meiri Nike-maður en Everton- eða United-maður," sagði heimildamaður Goal.com.






Tengdar fréttir

Rooney fer ekki neitt - skrifar undir fimm ára samning

Wayne Rooney mun skrifa undir fimm ára samning við lið Manchester United og hefur því eytt óvissunni sem skapaðist í vikunni. Þá upplýsti sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri félagsins að Rooney vildi yfirgefa félagið. Í kjölfarið hófst atburðarrás sem endaði með því að Rooney hefur ákveðið að vera hjá liðinu næstu fimm árin.

Lou Macari: Verður erfitt fyrir Rooney

Lou Macari, fyrrum leikmaður Manchester United og einn helsti sérfræðingur MUTV-sjónvarsstöðvarinnar, segir að Wayne Rooney eigi mikla vinnu framundan ef hann ætlar sér að endurvinna traust liðsfélaga sinna og stuðningsmanna félagsins.

Rooney: Stjórinn sannfærði mig

Wayne Rooney, sem skrifaði undir fimm ára samning við Manchester United í dag, segir að það hafi verið Alex Ferguson sem hafi sannfært hann um að vera áfram hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×