Enski boltinn

Toure skorar á City að lækka laun leikmanna sem standa sig ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolo Toure.
Kolo Toure. Mynd/AP
Kolo Toure, varnarmaður Manchester City, er örugglega ekkert alltof vinsæll meðal sinna liðsfélaga eftir að hann skoraði á félagið að lækka laun þeirra leikmanna sem eru ekki að standa sig inn á vellinum.

Hinn 29 ára gamli Toure sem kom frá Arsenal fyrir síðasta tímabil var í viðtali við News of the World í morgun þar sem hann sagði að fullt af mönnum í liðinu væru ekki að standa undir þeim háu launum sem þeir fá frá félaginu.

„Maður verður að vera hreinskilinn þótt að maður særi einhverja með því. Það eru leikmenn í liðinu okkar sem eru ekki að vinna nógu vel fyrir liðið. Sumir þeirra taka lítið á því á æfingum en ætlast samt til þess að fá að spila," sagði Toure.

„Við fáum allir góð laun hjá City en sumir okkar þurfa að leggja meira á sig. Þú getur ekki heimtað að fá að spila ef þú tekur ekki þátt í æfingum á fullum krafti og þá á ekki að skipta máli þó að þú sért landsliðsmaður," sagði Toure.

„Við leikmenn erum í besta starfi í heimi og ef stjórinn myndi segja við okkur: Þú hefur ekki lagt þig nóg fram og færð bara hálf laun í þessari viku - þá er ég viss um að menn myndu leggja meira á sig," sagði Toure.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×