Fótbolti

Fabregas: Ekkert unnið enn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cesc Fabregas í leiknum í kvöld.
Cesc Fabregas í leiknum í kvöld. Nordic Photos / AFP

Cesc Fabregas ætlar ekki að fagna sigri of snemma þrátt fyrir gott gengi Spánverja á HM í Suður-Afríku. Spánn vann í dag Paragvæ, 1-0, í fjórðungsúrslitum HM og mætir Þýskalandi í undanúrslitum á miðvikudagskvöldið.

Fabregas kom inn á sem varamaður fyrir Fernando Torres á 56. mínútu leiksins en David Villa skoraði eina mark leiksins á 82. mínútu.

„Tilfinningin er góð en við höfum ekkert unnið enn," sagði Fabregas við fjölmiðla eftir leikinn.

„Við erum ánægðir með sigurinn því þetta var erfiður leikur en við vitum að þýðir ekkert að komast í undanúrslitin ef við komumst svo ekki alla leið í úrslitaleikinn."

„Þetta verður mjög erfitt gegn Þýskalandi þar sem að þetta er eitt besta varnarlið keppninnar. Við verðum bara að vera jákvæðir í okkar leik og ná okkar besta fram. Við viljum vinna þá."

Vicente del Bosque landsliðsþjálfari var dauðfeginn eftir að leikurinn var flautaður af í kvöld.

„Á mínum tíma sem landsliðsþjálfari hefur liðinu aldrei liðið jafn illa á vellinum og gefið jafn slæmar sendingar og við gerðum í kvöld. Þetta var afar erfitt og afar óþægilegur leikur. Við áttum þó von á þessu - þeir leyfðu okkur ekki að spila okkar leik," sagði del Bosque. „Þetta er frábært fyrir spænska knattspyrnu."

Hann hrósaði einnig leikmönnum sínum eftir leikinn, sérstaklega Casillas og Villa.

„Casillas var ótrúlegur og bjargaði glæsilega í tvígang. Villa er í toppformi og var aftur réttur maður á réttum stað. Við hefðum kannski átt að skora fyrr í leiknum en Villa hafði einfaldlega hungrið til að skora."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×