Enski boltinn

Bobby Zamora ökklabrotnaði í sigri Fulham á Wolves

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsfélagar Bobby Zamora horfa upp á hann borinn af velli í dag.
Liðsfélagar Bobby Zamora horfa upp á hann borinn af velli í dag. Mynd/AP
Fulham varð fyrir miklu áfall í dag þegar aðalmarkaskorari liðsins, Bobby Zamora, ökklabrotnaði í 2-1 sigurleik liðsins á móti Wolves. Zamora var nýbúinn að skrifa undir nýjan samning við félagið en verður nú ekkert með næstu mánuðina.

Bobby Zamora meiddist á 28. mínútu þegar Úlfarnir voru komnir í 1-0. Moussa Dembélé bjargaði hinsvegar málunum með tveimur mörkum í seinni hálfleik þar af kom sigurmarkið í uppbótartíma eftir að Fulham var orðið manni fleiri.

„Auðvitað erum við ánægðir með sigurinn en það er mikið áfall að missa Bobby," sagði Mark Hughes, stjóri Fulham.

„Hann braut á sér ökklann og verður frá í þrjá til fjóra mánuði. Ég finn til með Bobby því hann var búinn að vinna sér sæti í enska landsliðinu þannig að þessi meiðsli gætu ekki komið á verri tíma fyrir strákinn," sagði Hughes.

„Það er aldrei gott fyrir liðið að horfa upp á liðsfélaga sinn borinn útaf á börum og það háði okkur talsvert. Við náðum að rífa okkur upp í hálfleiknum, vorum frábærir í seinni hálfleiknum og áttum að mínu mati sigurinn skilinn," sagði Hughes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×