Fótbolti

Van Marwijk óttast ekki Brasilíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bert van Marwijk með Dirk Kuyt og Nigel De Jong.
Bert van Marwijk með Dirk Kuyt og Nigel De Jong. Nordic Photos / Getty Images
Bert van Marwijk, landsliðsþjálfari Hollands, óttast ekki að mæta Brasilíu í fjórðungsúrslitum HM í Suður-Afríku en leikurinn fer fram í dag.

„Brasilía er afar sigurstranglegt en við höfum áður sýnt að við getum unnið slík lið. Ég er viss um að við getum gert það aftur," sagði hann á blaðamannafundi í gær.

„Liðið mitt er tilbúið og er hægt að greina eftirvæntinguna í mínum leikmönnum. Þeir vita að það er afar mikilvægur leikur framundan og eru fyllilega einbeittir. Við óttumst þá ekki. Við erum raunsæir - við vitum að Brasilía á mörg tromp á hendi og geta snúið leikjum sér í hag. En ég veit að við getum unnið þennan leik."

Hann segir enn fremur mikilvægt að breyta ekki um leikstíl þó svo að andstæðingurinn sé Brasilía.

„Það er mikilvægt að halda áfram að spila sinn vanalega leik. Sjáið hvað gerðist þegar Fílabeinsströndin spilaði við Brasilíu. Þeir voru afar varnarsinnaðir og töpuðu. Það er ekki rétta leiðin til að spila. Við verðum þó að vera varkárir og gera ekki nein mistök."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×