Enski boltinn

Jafntefli hjá Sunderland og Everton

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld.

Sunderland náði ekki að jafna Bolton og Tottenham að stigum í kvöld er Everton kom í heimsókn. Leikurinn var fjörugur og endaði með jafntefli, 2-2.

Fyrsta mark leiksins kom eftir aðeins sex mínútna leik. Leighton Baines átti þá frábæra fyrirgjöf sem rataði á kollinn á Tim Cahill sem stangaði knöttinn í netið. Smekklega gert.

Á 23. mínútu átti Bolo Zenden magnaðan sprett upp hægri kantinn fyrir Sunderland. Eftir sprettinn góða gaf hann hnitmiðaða sendingu í teiginn sem fór beint til Danny Welbeck. Hann var ekki neinum vandræðum með að skora af stuttu færi.

Lánsmaðurinn frá Man. Utd hefur verið sjóðheitur upp á síðkastið og Welbeck skoraði aftur þegar 20 mínútur lifði leiks. Þá með frábærum skalla.

Leikmenn Everton gáfust ekki upp og sjö mínútum fyrir leikslok náðu þeir að jafna. Mikel Arteta lék þá á Welbeck fyrir utan teiginn, lét skotið ríða af sem fór í varnarmann og í netið. Ekki fallegasta markið en það telur jafnt og hin í leiknum.

Sunderland er í sjöunda sæti eftir leikinn en Everton komst upp í fjórtánda sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×