Innlent

Þarf að grípa til mjög harðra aðgerða gagnvart glæpasamtökum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Félagi í Hells Angels. Mynd/ AFP.
Félagi í Hells Angels. Mynd/ AFP.
Formaður allsherjarnefndar Alþingis segist telja að Íslendingar þurfi að grípa til mjög harðra aðgerða gagnvart samtökum sem grunuð eru um að stunda skipulagða glæpastarfsemi. „Og ég tel að við eigum að setja lög sem banni starfsemi slíkra samtaka," segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar.

Danska lögreglan segir í skýrslu til dómsmálaráðherrans þar í landi að löggjöf sem banni vélhjólaklúbba, líkt og Vítisengla, sé tilgangslaus. Skýrsluhöfundar segja að það sé einungis hægt að leysa upp slík glæpasamtök ef búið er að sanna að það sé markviss stefna þeirra að vinna að glæpum eða ofbeldi. Það leiki umtalsverður vafi á því hvort hægt sé að færa fram slikar sannanir gegn tilteknum klúbbum.

Vítisenglar eru dæmi um vélhjólaklúbb sem hefur verið grunaður um að stunda skipulagða glæpastarfsemi. Klúbburinn hefur náð að festa rætur í Skandínavíu. Staða Íslands er hins vegar frábrugðin að því leyti að hér hefur klúbburinn ekki enn tekið formlega til starfa. Félagar úr vélhjólaklúbb sem eitt sinn kallaðist Fáfnir er hins vegar sagður vera í umsóknarferli. „Við höfum reynsluna erlendis frá," segir Steinunn Valdís sem telur að bregðast þurfi við áður en samtökin nái að skjóta niður rótum hér á landi.

Í dag er mánuður síðan að Leif Ivar Kristiansen, leiðtoga Vítisengla í Noregi, var handtekinn í Leifsstöð við komuna til landsins með lögmanni sínum. Hann gisti fangageymslur í tæpan sólarhring áður en honum var vísað úr landi. Leif hefur kært brottvísunina til dómsmálaráðuneytisins.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×