Enski boltinn

James: Vil bara standa mig vel og fara svo á HM

Ómar Þorgeirsson skrifar
David James.
David James. Nordic photos/AFP

Enski landsliðsmarkvörðurinn David James hjá Portsmouth er í sérstakri stöðu þar sem hann er með klausu í samningi sínum við félagið að ef hann spili 25 leiki eða fleiri á þessu tímabili þá þurfi félagið að bjóða honum nýjan og betri samning.

Portsmouth er hins vegar í svo mikilli skuldasúpu að félagið hefur ekki efni á því að bjóða hinum 39 ára gamla markverði betri kjör en þau sem hann er á og raunar hefur forráðamönnum Portsmouth mistekist í fjórgang að greiða laun leikmanna og starfsmanna félagsins á réttum tíma á tímabilinu.

James vill hins vegar ekki að klausan geri það að verkum að hann verði ekki látinn spila út tímabilið og er tilbúinn að gleyma henni í bili.

„Umboðsmaður minn er að ræða við forráðamenn félagsins og ég hef þegar látið knattspyrnustjórann vita hvað mér finnst í þessu máli. Ég vil ekki að þessi klausa komi í veg fyrir að ég spili vegna þess að ég veit að fjárhagsstaða félagsins hefur ekki verið góð. Ég vil bara standa mig vel, hjálpa til við að bjarga liðinu frá falli og fara svo á HM. Hvað gerist eftir það er bara seinni tíma vandamál," segir James.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×