Fótbolti

Landsliðsþjálfari Úrúgvæ: Við erum ekki svindlarar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vítaskyttan ískalda Sebastian Abreu fagnar með landsliðsþjálfaranum Oscar Tabarez eftir leikinn í gær.
Vítaskyttan ískalda Sebastian Abreu fagnar með landsliðsþjálfaranum Oscar Tabarez eftir leikinn í gær. Nordic Photos / Getty Images
Oscar Tabarez, landsliðsþjálfari Úrúgvæ, segir að sínir menn séu ekki svindlarar en Úrúgvæ komst í gær áfram í undanúrslit HM í knattspyrnu á ótrúlegan máta.

Sóknarmaðurinn Luiz Suarez varði boltann ólöglega með höndunum á marklínu í blálok framlengingar leiks Úrúgvæ og Gana. Víti var dæmt og Suarez fékk eðlilega að líta rauða spjaldið.

Asamoah Gyan misnotaði hins vegar vítaspyrnuna og því réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni þar sem Úrúgvæ hafði betur.

„Þegar knötturinn er handleikinn í teignum á að gefa rautt spjald og leikmaðurinn er þar með rekinn af velli," sagði Tabarez eftir leikinn í gær.

„Að halda því fram að við hefðum svindlað á Gana er of gróft í okkar garð. Við þurfum líka að hlýða því sem dómarinn gerir. Vissulega varði hann boltann með höndunum en hann var ekki að svindla á neinum. Ég tel ekki sanngjarnt að segja það."

„Þetta voru ósjálfráð viðbrögð hjá honum. Hann var rekinn af velli og verður í leikbanni í næsta leik. Hvað meira viljið þið að verði gert?"

„Var það Suarez að kenna að Gana klikkaði á vítinu? Svona er fótboltinn. Brotið hefur sínar afleiðingar og það var ekki hægt að vita að Gana myndi misnota vítaspyrnuna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×