Enski boltinn

Ferguson spenntur fyrir Bebe

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bebe í leiknum í gær.
Bebe í leiknum í gær. Nordic Photos / Getty Images

Alex Ferguson, stjóri Manchester United, var ánægður með það sem hann sá þegar að Portúgalinn Bebe lék sínar fyrstu mínútur með Manchester United í gær.

Bebe kom inn á sem varamaður er United vann 5-2 sigur á Scunthorpe í ensku deildabikarkeppninni í gær.

Hann gekk til liðs við United í síðasta mánuði og hefur Ferguson viðurkennt að þá hafði hann aldrei séð hann spila. United keypti kappann á 7,4 milljónir punda.

„Þetta var spurning um eðlisávísunina. Stundum finnur maður lyktina af svona löguðu og slær til," sagði Ferguson eftir leikinn í gær.

„Við vorum með njósnara í Portúgal þegar við spurðumst fyrir um þennan unga leikmann sem var að spila í 2. deildinni í Portúgal. Hann hafði aðeins spilað þrjá eða fjóra leiki og njósnarinn heimtaði að við myndum kaupa hann."

„Þetta var hálfgert skot í myrkri þar sem við höfðum ekki séð hann spila. Við sendum njósnara til að sjá hann spila í síðasta leiknum áður en við keyptum hann. Það getur verið að hann búi yfir einhverju sérstöku og því tókum við áhættuna."

„Hann hafði ekki tekið þátt í almennilegu undirbúningstímabili og var því ekki tilbúinn. Við höfum því verið að vinna í því að koma honum í stand síðustu vikurnar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×