Innlent

Tugir hafast við í hjálparstöðvunum

Frá grunnskólanum á Hvolsvelli í nótt. Mynd/Rauði kross Íslands
Frá grunnskólanum á Hvolsvelli í nótt. Mynd/Rauði kross Íslands
Tugir manna hafast við í fjöldahjálparstöðvum Rauða kross Íslands í grennd við Eyjafjallajökul. Vegna eldgossins virkaði Rauði krossinn neyðarvarnarkerfi sitt og opnað í nótt starfsstöðvar í grunnskólanum á Hvolsvelli, Varmahlíð, Heimalandi og Drangshlíð.

„Við erum að skipuleggja framhaldið en það verður opið fram á kvöld og líklega í nótt. Rauði krossinn aðstoðar þá sem ekki hafa gistiaðstöðu þannig að fjöldahjálparstöðvarnar verða opnar eins lengi og rýming er í gangi," segir Sólveig Ólafsdóttir hjá Rauða krossinum.

Um 500 manns skráðu sig í starfsstöðinni í grunnskólanum á Hvolsvelli í nótt og segir Sólveg að tæplega 200 hafi nýtt sér aðstöðuna þar. „Það voru um 60 manns í skólanum í hádeginu en það er fólk sem kemur og fer. Nú eru þar til að mynda á bilinu 20 til 30," segir Sólveig. Um það bil 60 komu í Heimland en þar er enginn núna, í Varmahlíð eru þrír en þangað komu 17 og 35 í Drangshlíð sem eru þar ennþá, að sögn Sólveigar.

Um 700 manns þurftu að yfirgefa heimili sín vegna gossins í nótt, en það er svipað og þegar gos hófst á Fimmvörðuhálsi 20. mars síðastliðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×