Enski boltinn

Yfirlýsing frá Rooney: Efast um framtíðarstefnu United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Nordic Photos / Getty Images
Wayne Rooney hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann staðfestir að hann vilji fara frá Manchester United.

Um fátt annað hefur verið fjallað í Englandi og þótt víðar væri leitað síðan að það fréttist að Rooney vildi fara. Fyrst staðfesti Alex Ferguson, stjóri United, það á blaðamannafundi í gær og svo Rooney með yfirlýsingu sinni í dag.

„Ég hitti David Gill [framkvæmdarstjóra United] í síðustu viku og hann gat ekki gefið mér þau svör sem ég vildi fá um framtíðarskipan liðsins," sagði Rooney í yfirlýsingu sinni.

„Það var þá sem ég sagði honum að ég myndi ekki skrifa undir nýjan samning."

Hann sagði enn fremur að það hafi komið honum á óvart hversu ítarlega Ferguson fór í hans mál á blaðamannafundinum í gær.

„Ég hafði áhuga á því sem Sir Alex hafði að segja í gær og sumt af því kom mér á óvart."

„Það var satt, eins og hann sagði, að ég hafði fundað mörgum sinnum með fulltrúum félagsins ásamt umboðsmanni mínum um nýjan samning."

„Á þeim fundum sem áttu sér stað í ágúst bað ég um að ég yrði fullvissaður um að félagið hefði áfram bolmagn til að laða til sín bestu leikmenn heimsins."

„Ég hef aldrei komið fram við MUFC öðruvísi en af fullri virðingu. Hvernig væri annað hægt ef mið er tekið af frábærri sögu félagsins og þá sérstaklega á þeim sex tímabilum sem ég hef verið svo lánsamur að taka þátt í."

„Hvað mig varðar snýst þetta allt um að vinna til verðlauna - eins og félagið hefur alltaf gert undir stjórn Sir Alex. Það var þess vegna sem mér fannst spurningar mínar réttlátar."

„Þrátt fyrir þá erfiðleika sem liðið hefur gengið í gegnum að undanförnu, þá veit ég að ég stend ævinlega í stórri þakkarskuld við Sir Alex Ferguson. Hann er frábær knattspyrnustjóri og lærifaðir sem hefur stutt mig frá fyrsta degi er ég kom til félagsins frá Everton, átján ára gamall."

„Ég óska þess fyrir hönd Manchester United að hann verði áfram í starfi að eilífu því hann er einstakur og snillingur."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×