Erlent

Vilja banna reykingar í bílum

MYND/AP

Læknar í Bretlandi hafa krafist þess að reykingar í bílum verði bannaðar með öllu. Læknarnir vísa til nýrrar könnunar sem sýnir að á hverju ári megi rekja  22 þúsund tilvik astma á meðal barna í Bretlandi til óbeinna reykinga.

Tuttugu þúsund tilvik lungnabólgu, tólf þúsund tilvik eyrnabólgu og 200 tilvik af heilahimnnubólgu má einnig rekja til óbeinna reykinga að sögn læknanna. Þeir bæta því við að rekja megi fjörutíu tilvik vöggudauða á hverju ári til óbeinna reykinga og er það eitt af hverjum fimm tilvikum.

Prófessor John Britton, talsmaður læknanna, segir að helst vildu þeir láta banna reykingar innandyra alfarið en að slíkt bann væri óraunhæft eins og er. Hins vegar væri auðveldara fyrir lögreglu að fylgjast með því að reykingabanni í bílum væri fylgt eftir og því hvetja þeir til þess að lögin verði sett.

Hann bætti því við að ökumenn í bílum þar sem engin börn séu innanborðs ættu einnig að stoppa og bregða sér út áður en þeir kveikja í rettunni, því það sé beinlínis hættulegt að aka bíl og reykja á sama tíma.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×