Fótbolti

Mourinho: Ég er besti þjálfari ársins en ekki del Bosque

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Mynd/AP
Jose Mourinho segist eiga skilið að vera kosinn þjálfari frekar en Vicente del Bosque sem á árinu gerði Spánverja að heimsmeisturum í fyrsta sinn í sögunni. Mourinho tjáði sig frjálslega um verðlaunin í viðtali við ítalska blaðið Gazzetta dello sport.

„Ég hef ákveðið mig fyrir löngu. Eftir ellefu mánaða vinnu, 57 spilaða leiki og þrjá titla þar á meðal þarna mikilvægasta af þeim öllum, aðalmótið, Meistaradeildina, er það morgunljóst hver er þjálfari númer eitt," sagði Jose Mourinho, fyrrum þjálfari Inter Milan og núverandi þjálfari Real Madrid.

„Ég vann allt á þessu ári og get ekki gert betur en það," bætti Mourinho við. Hann tjáði líka óánægju sína með það að Hollendingurinn Wesley Sneijder kæmi ekki til greina sem besti leikmaður ársins. Samkvæmt heimildum ítalska blaðsins fær Andres Iniesta Gullboltann í ár en hann var einn af þremur hæstu í kjörinu ásamt þeim Lionel Messi og Xavi.

„Ef Iniesta vinnur, sá hinn sami og gat ekki spilað fyrstu fimm mánuði ársins vegna meiðsla en spilaði síðan sex leiki og skoraði eitt mark í Suður-Afríku (sigurmarkið í úrslitaleik HM), þá getur allt gerst á HM-ári. Fari svo þá telur ekkert annað en heimsmeistarakeppnin á HM-ári," sagði Mourinho.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×