Enski boltinn

Carlos Tevez verður með fyrirliðabandið á eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez, verður áfram fyrirliði Manchester City.
Carlos Tevez, verður áfram fyrirliði Manchester City. Mynd/AFP

Carlos Tevez verður í byrjunarliði Manchester City og með fyrirliðabandið þegar liðið tekur á móti Everton í ensku úrvalsdeildinni á eftir. Manchester City gaf út tilkynningu fyrr í kvöld þar sem kemur fram að Tevez sé hættur að vilja fara frá félaginu.

Samkvæmt heimildum BBC fóru fram fundir í gær og í dag en hvorki Roberto Mancini, stjóri Manchester City eða Kia Joorabchian, umboðsmaður Carlos Tevez tóku þátt í þeim.

Það voru hinsvegar þeir Carlos Tevez, framkvæmdastjórinn Garry Cook og stjórnarformaðurinn Khaldoon al-Mubarak sem hittust og gerðu upp málin. Í kjölfarið var Tevez sáttur við að umrædd tilkynning var sett á heimasíðu Manchester City.

„Það var mikilvægt fyrir alla að Carlos yrði áfram hjá okkur. Það var auðvelt að ákveða það að Tevez yrði áfram fyrirliði. Ég hef ekki áhyggjur af honum í leiknum í kvöld og ég er viss um að hann mun eiga góðan leik. Þetta er mikilvægur leikur fyrir bæði hann og allt liðið enda eru allir leikir mikilvægir þessa stundina," sagði Roberto Mancini í viðtali við BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×