Enski boltinn

Ferguson hugsar ekki um að hætta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ferguson kvaddi Solskjær á dögunum en er ekki á förum sjálfur.
Ferguson kvaddi Solskjær á dögunum en er ekki á förum sjálfur.

Hinn 68 ára gamli stjóri Man. Utd, Sir Alex Ferguson, er enn við hestaheilsu og hann segist ekki einu sinni vera farinn að íhuga að yfirgefa stjórastólinn hjá félaginu.

Ferguson náði merkum áfanga um helgina er hann sló met Sir Matt Busby sem fáir áttu von á að yrði slegið. Ferguson hefur ný stýrt United lengst allra í sögu félagsins en hann tók við liðinu árið 1986.

Hann ætlaði að hætta fyrir níu árum síðan en hætti við og hefur síðan vart íhugað að hætta.

"Því eldri sem maður verður því meiri áhyggjur hefur maður af því að hætta. Þá uppgötvar maður að meðan heilsan er enn góð þá á maður að halda áfram að vinna," sagði Ferguson.

"Allar hugsanir um að hætta eru fjarri mér sem stendur. Það voru mistök að segjast ætla að hætta á sínum tíma. Það voru reyndar ástæður fyrir því en það er allt gleymt í dag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×