„Hún Kristín vinkona mín er flugfreyja og hugmyndin að teppapeysunni vaknaði hjá henni á löngum flugferðum þar sem hún fylgdist með því hvernig farþegar reyndu að koma sér þægilega fyrir undir litlu teppi,“ segir Ingibjörg Þóra Gestsdóttir fatahönnuður, sem hefur hannað skemmtilega peysu í samvinnu við vinkonu sína Kristínu Unni Þórarinsdóttur.
„Stína kom til mín með þá hugmynd að hanna flík sem gæti gert fólki lífið auðveldara á ferðalögum,“ útskýrir Ingibjörg.
Þær stöllur hófu að gera nokkrar tilraunir í febrúar. Þær veltu hugmyndinni á milli sín og fengu meðal annars vini og ættingja til að leggja höfuðið í bleyti. Einn þeirra kom með þá hugmynd að nota ull.
„Við hönnuðum mynstur, létum prjóna efni fyrir okkur í Glófa og létum bursta það bæði að utan og innan svo það stingi ekki,“ segir Ingibjörg en þær Kristín saumuðu síðan peysuna úr vélprjónuðu efninu.

„Hún virkar í fyrsta lagi sem utanyfirflík sem rennt er upp með rennilás. Þá er neðri hluti hennar hnepptur upp. Í öðru lagi er flíkin teppi. Þá eru hnapparnir losaðir og til verður teppapeysa þar sem hægt er að stinga tánum ofan í prjónaðan poka,“ segir Ingibjörg og áréttar að peysan sé mjög hlý enda fjórföld í bakið þegar neðri hluta hennar er hneppt upp.
„Hún vegur þó aðeins rúmt kíló og því ekki þungt að vera í henni,“ segir hún og bendir á að hægt sé að rúlla peysunni allri inn í hettuna. Þannig verði til koddi auk þess sem auðvelt sé að ferðast með hana.
Nánar má fræðast um peysuna á koffort.is en peysuna má fá í Ísbirninum á Laugaveginum, Hrím hönnunarhúsi á Akureyri og í Leifsstöð.
solveig@frettabladid.is