Enski boltinn

Tottenham fær á sig fæst mörk á heimavelli

Menn eru hættir að hlæja að Heurelho Gomes - í bili að minnsta kosti
Menn eru hættir að hlæja að Heurelho Gomes - í bili að minnsta kosti Nordic Photos/Getty Images

Brasilíski markvörðurinn Heurelho Gomes hjá Tottenham byrjaði ekki vel hjá liðinu í haust og mátti hlusta á háðsglósur um allt England vegna mistaka sinna og skrautlegra marka sem hann fékk á sig.

Enginn þorði að vona að þessi litríki markvörður yrði lengi í herbúðum liðsins eftir að Harry Redknapp tók við liðinu, en hann neyddist um tíma til að notast við Brasilíumanninn þó sjálfstraust hans væri í molum eftir hver mistökin á fætur öðrum.

"Gomes hefur sýnt mikinn karakter í vetur, því hann fékk háðsglósur yfir sig hvar sem hann kom. Áhorfendurnir létu hann virkilega heyra það," sagði Harry Redknapp knattspyrnustjóri.

Nú eru menn að mestu hættir að hlæja, því þegar rýnt er í tölfræðina, má sjá að Tottenham er með bestu vörnina á heimavelli í allir úrvalsdeildinni.

Tottenham hefur aðeins fengið á sig níu mörk á heimavelli í allan vetur og ef liðið fær ekki á sig meira en eitt mark í síðasta heimaleiknum gegn Manchester City, verður það besti árangur liðsins í næstum 90 ár.

Tottenham hefur haldið hreinu í síðustu sex heimaleikjum en félagsmetið er 11 mörk fengin á sig í gömlu annari deildinni árið 1920.

Tottenham fékk á sig 34 mörk á heimavelli á síðustu leiktíð, en það var það mesta í deildinni fyrir utan Derby sem féll úr deildinni.

Þetta er ekki síður merkileg staðreynd í ljósi þess að Tottenham var á botni úrvalsdeildarinnar framan af vetri og fékk aðeins tvö stig úr fyrstu átta leikjunum sínum undir stjórn Juande Ramos.

Fimm af mörkunum níu sem Tottenham hefur fengið á sig á heimavelli komu snemma í haust í stjórnartíð Juande Ramos.

Þetta skrifast að miklu leyti á bætta frammistöðu Heurelho Gomes í marki Tottenham, en þá má heldur ekki gleyma miðvörðunum Ledley King og Michael Dawson, sem hafa staðið sig mjög vel á leiktíðinni.

Redknapp hefur líka miklar mætur á miðvarðaparinu sínu. "King og Dawson eru fyllilega á pari með John Terry og Ricardo Carvalho að mínu mati og það er ekki mikill munur á þeim og Ferdinand og Vidic hjá Manchester United," sagði Redknapp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×