Erlent

Mannréttindasamtök segja árásir Hamas stríðsglæpi

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Mannréttindasamtökin Human Right Watch hvetja nú Hamas samtökin í Palestínu til að fordæma eldflaugaárásir herskárra Hamasliða á Ísrael og draga hina seku til ábyrgðar.

Iain Levine, verkefnastjóri HRW, segir árásir Hamas ólöglegar og óréttlætanlegar og nálgist það að vera stríðsglæpir.

HRW hefur einnig gagnrýnt aðgerðir Ísraela gagnvart Palestínumönnum á Gaza svæðinu, en segir brot eins aldrei réttlæta brot annars. Jafnvel þó fleiri hafi dáið í aðgerðunum á Gaza, þá séu brot á stríðslögum ekki ákvörðuð af fjölda látinna.

Þá segja HRW Palestínumenn stefna eigin borgurum í hættu með því að skjóta eldflaugum frá byggðum svæðum.

Þessu vísar Ismail Ridwan, talsmaður Hamas, á bug og segir Hamas ekki nota mannlega skildi, þeir skjóti eldflaugum ekki frá íbúasvæðum og beini árásunum ekki á óbreytta borgara.

Allt að 800 þúsund Ísraelar eru innan skotfæris eldflauganna, en undanfarið ár hafa þrír látist í árásunum, tugir slasast og miklar skemmdir hotist af þeim.

Ísraelar segja tólfþúsund eldflaugum verið skotið að þeim milli 2000 og 2008. Áhlaupinu á Gaza í upphafi árs hafi verið ætlað að binda enda á árásirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×