Fótbolti

Hvernig spilast HM í Suður-Afríku?

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Fabio Cannavaro lyfti bikarnum í Þýskalandi árið 2006.
Fabio Cannavaro lyfti bikarnum í Þýskalandi árið 2006. Nordicphotos/GettyImages

Heimsmeistaramótið í Suður-Afríku hefst eftir 188 daga. Í dag var dregið í riðla fyrir keppnina og þá kom í ljós hverjir mæta hverjum í riðlakeppninni. Þá kom líka í ljós hverjir mætast í næstu stigum keppninnar.

Liðin í riðlunum sem komast áfram mæta andstæðingum í næsta riðli. Þannig mætir sigurvegari A-riðils liðinu sem lendir í öðru sæti í B-riðli. Þannig gengur þetta koll af kolli.

Til gamans má þannig sjá að Frakkland og Argentína gætu lent saman strax í 16-liða úrslitunum og England gæti mætt Þýskalandi.

Þá gætu Holland og Ítalía mæst og Spánverjar gætu, og ættu raunar, að mæta annaðhvort Brasilíu eða Portúgal. Spánverjar eru þannig líklega einna óheppnastir með það hvaða bókstafur táknar riðlana.

Andstæðingarnir færast allaf nær hvor öðrum, og þannig getur England til að mynda ekki mætt Brasilíu fyrr en í fyrsta lagi í undanúrslitunum.

Fyrsti leikurinn fer fram þann 11. júní þegar gestgjafarnir mæta Mexíkó. Úrslitaleikurinn fer svo fram mánuði síðar, þann 11. júlí í Jóhannesarborg.

Drátturinn:

A-riðill: Suður-Afríka, Mexíkó, Úrúgvæ, Frakkland.

B-riðill: Argentína, Suður-Kórea, Nígería, Grikkland.

C-riðill: England, Bandaríkin, Alsír, Slóvenía.

D-riðill: Þýskaland, Ástralía, Ghana, Serbía.

E-riðill: Holland, Japan, Kamerún, Danmörk.

F-riðill: Ítalía, Nýja-Sjáland, Paragvæ, Slóvakía.

G-riðill: Brasilía, Norður-Kórea, Fílabeinsströndin, Portúgal.

H-riðill: Spánn, Hondúras, Chile, Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×