Innlent

Ofbeldi beitt til þess að ná breytingum í gegn

Höskuldur Þórhallsson
Höskuldur Þórhallsson
Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins segir að forsætisráðherra sé að búa til gjá milli stjórnarandstöðu og ríkisstjórnarinnar með orðum sínu í fréttum í kvöld. Þar sagði Jóhanna meðal annars að trúnaðarbrestur hefði orðiði þar á milli. Hann segir rangt að 800 milljarðar séu að falla á innistæðutryggingarsjóð þann 24.október eins og haldið hefur verið fram.

„Að mínu mati er verið að beita ofbeldi við það ná einhverjum breytingum á fyrirvörunum í gegn," segir Höskuldur sem er meðal annars fulltrúi framsóknar í fjárlaganefnd.

Höskuldur segir annað mál sem nefnt hafi verið í kvöldfréttum Rúv vera grafalvarlegt. Þar hafi því verið haldið fram að 800 milljarðar séu að falla á innistæðutryggingarsjóð þann 24.október vegna Icesavesamningana.

„Það er væntanlega komið frá ríkisstjórninni því Steingrímur J. Sigfússon hélt uppi slíkum málflutningi þegar við vorum að klára Icesave núna í ágúst. Þessum fullyrðingum hefur verið hafnað af færustu lögfræðingum landsins."

Höskuldur bendir á í því samhengi að ef ríkisábyrgðin taki ekki gildi þá séu engir Icesavesamningar og hún taki ekki gildi fyrr en Hollendingar og Bretar hafa samþykkt fyrirvarana.

„Þangað til eru engir Icesavesamningar í gildi og þá getur ekkert gjaldfallið á íslendinga. Þetta er hræðsluáróður og þessu er haldið fram eins og þetta séu sannindi, en er í raun rangt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×