Enski boltinn

Wenger lítur á björtu hliðarnar

AFP

Arsene Wenger tókst að líta á björtu hliðarnar í viðtölum eftir 4-1 skell hans manna í Arsenal á heimavelli gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Varnarleikur Arsenal undanfarið hefur ekki verið traustur og Wenger viðurkenndi að það hefði verið erfitt að horfa upp á svo stórt tap heima. Hann vildi samt líta á björtu hliðarnar eftir leikinn.

"Þetta var þungbært. Við getum litið á björtuhliðarnar eða þær dökku. Við töpuðum leiknum 4-1 en við áttum að vera komnir í 2-0 áður en þeir áttu skot á markið. Heilt yfir spiluðum við ágætlega og sköpuðum okkur mörg marktækifæri," sagði Wenger.

"Við misnotuðum sjö eða átta dauðafæri í þessum leik en var refsað fyrir hver einustu mistök sem við gerðum. Við fengum á okkur fjögur mörk gegn Liverpool, þrjú gegn United og fjögur í dag. Við verðum að bæta hjá okkur varnarleikinn," sagði Wenger.

Hann var spurður að því hvort þetta þýddi að Arsenal þyrfti að kaupa varnarmenn í sumar.

"Maður segir ekki að maður ætli að fara út og kaupa fjóra varnarmenn bara af því maður tapar 4-1. Þetta er meira spurning um að finna jafnvægi í varnarleiknum og ef annað markið er skoðað, skrifast það frekar á miðjuna en á vörnina," sagði Wenger.

"Ég veit ekki hvort verða til peningar til leikmannakaupa en það á eftir að koma í ljós. Ég tel að þurfi ekki að kaupa mikið inn í þennan leikmannahóp. Við þurfum bara að halda áfram að bæta okkur," sagði Wenger.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×