Erlent

Óska eftir að ráða Q

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Q sýnir stoltur sprengjuvekjaraklukkuna í Licence to Kill frá 1989. Timothy Dalton fylgist opinmynntur með.
Q sýnir stoltur sprengjuvekjaraklukkuna í Licence to Kill frá 1989. Timothy Dalton fylgist opinmynntur með. MYND/AP

Fáir hafa orðið jafn-nafntogaðir og tækjadellukarlinn Q í kvikmyndunum um James Bond auk þess sem sennilega er leitun að styttra nafni til að toga. Leyniþjónustan MI5 auglýsir nú eftir Q.

Lengst af fór hinn virðulegi Desmond Llewelyn með hlutverk Q og var óþreytandi við að bjóða njósnara hennar hátignar upp á græjur, tæki og tól sem mörg hver hafa öðlast ódauðleika á tjaldinu. Hver man ekki eftir táragaslyklakippunni góðu í The Living Daylights og hinu stórhættulega úri sem Bond skartaði í Moonraker og gat sent frá sér bráðdrepandi leysigeisla auk þess sennilega að gefa til kynna hvað tímanum liði?

Nú er svo komið að MI5 er að leita sér að nýjum einstaklingi til að sinna þessu hlutverki og auglýsir það meira að segja opinberlega í breskum fjölmiðlum. Umsóknarfrestur er til 24. apríl og óþarft er að taka það fram að umsækjendur þurfa að hafa vit á tækninýjungum, tölvum og tólum og vera tilbúnir að þróa þessi mál hjá leyniþjónustunni í takt við nýja tíma. Það eina sem ekki fylgir sögunni er hvort viðkomandi verði kallaður Q.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×