Erlent

Birtir leyniskjöl um illa meðferð á föngum

Óli Tynes skrifar
Barack Obama hefur látið birta leyniskjöl yfir illa meðferð á föngum sem heimiluð var í forsetatíð Georges Bush. Eftir árásina á Bandaríkin 11. september árið 2001 fengu starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar CIA sérstakar heimildir til þess að beita fanga hörku við yfirheyrslu, ef þeir voru grunaðir um að búa yfir vitneskju um frekari árásir.

Þetta var gert með fjórum skriflegum heimildum frá dómsmálaráðuneytinu sem voru merktar top secret eða algert leyndarmál. Meðal annars var leyft að halda föngum nöktum í sársaukafullum stellingum langtímum saman í köldum klefum.

Það var leyft að ræna þá svefni, svelta þá og löðrunga. Þá var einnig leyft að geyma þá langtímum saman í hlekkjum og hóta fjölskyldum þeirra. Árið 2002 gekk svo dómsmálaráðuneytið enn lengra þegar það heimilaði sérstaka meðferð á fanganum Abu Zubaydah.

Zubaydah virtist vera hræddur við skordýr og CIA fékk heimild til þess að loka hann inni í þröngu boxi og fylla það af margfætlum. Sú aðferð var raunar ekki notuð. Hinsvegar fékkst einnig leyfi til þess að beita því sem kallað er vatnsbrettið.

Þá er fanginn bundinn á bretti og því hallað svo höfuð hans vísi niður. Hetta er sett yfir höfuðið og svo er hellt vatni yfir hettuna.Það leiðir til mikillar drukknunartilfinningar, skelfingar, ógleði og uppkasta. Í réttarhöldum yfir japönskum hermönnum eftir síðari heimsstyrjöldina voru margir þeirra sakaðir um að beita þessari aðferð en hún er skilgreind sem pyntingar í Bandaríkjunum.

Þessar leyniheimildir hefur Barack Obama nú látið gera opinberar. Hann fullvissaði þó einnig starfsmenn CIA um að þeir yrðu ekki sóttir til saka þar sem þeir hefðu starfað samkvæmt heimildum frá dómsmálaráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×