Erlent

Árás á flóttamannahjálp SÞ: Vorum að verja okkur

Forsætisráðherra Ísraels segir höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Gaza verið notaðar til árása á ísraelska hermenn. Þeir hafi einfaldlega verið að svara fyrir sig þegar þeir hafi gert árás á þær í dag. Sameinuðu þjóðirnar vísa þessu á bug og hefur flóttamannahjálp samtakanna hætt störfum á Gaza um stundarsakir.

Ísraelar vörpuðu sprengjum og skutu á byggingar sem voru hluti af húsaþyrpingu Sameinuðu þjóðanna þar sem voru birgðageymslur, þjónusta flóttamannahjálpar samtakanna fyrir Palestínumenn á Gaza, skóli og skrifstofur starfsmanna.

Mikill svartur reykur lagðist yfir svæðið. Allt kapp var lagt á að slökkva eldinn.

Óttast var um eiturgufur frá reyknum þar sem fulltrúar Sameinuðu þjóðanna sögðu sprengjur og skotfæri ísraela sum húðuð hvítum fosfór en notkun hans er mjög takmörkuð samkvæmt alþjóðalögum.

Fólk hljóp skelfinu lostið úr húsunum en um átta hundruð Palestínumenn höfðu leitað skjóls í húsunum. Þrír starfsmenn Sameinuðu þjóðanna særðust í árásinni.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, var í Ísrael þegar hún var gerð. Framkvæmdastjórinn fordæmi árásina í samtali við Ehud Barak, varnarmálaráðherra og Ehud Olmert, forsætisráðherra, og krafðist ítarlegarlega skýringa.

Síðan átti framkvæmdastjórinn fund með Olmert þar sem hann sagðist harma árásina en skotið hafi verið á ísraelska hermenn frá húsaþyrpingunni. Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna hafa vísað þessu á bug.

,,Þeir höfðu staðsetningar hin okkar. þeir vissu að hundruð óbreyttra borgara væru í búðunum," sagði Chris Gunness, talsmaður fótamannahjálpar SÞ á Gaza.

Árásin í dag var hluti af harðri sókn Ísraelshers inn í Gazaborg í dag. Bardagar þar munu með þeim hörðust sem orðið hafa frá því árásir Ísraela hófust. Á meðan er rætt um mögulegt vopnahlé í Egyptalandi þangað sem helsti samningamaður Ísraela er kominn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×