Innlent

Veiðistjórnun skilar tilætluðum árangri

Rjúpnastofninn náði fimm til sex milljónum fugla þegar best lét. Stofninn var aðeins 60 þúsund fuglar fyrir fáum árum. fréttablaðið/gva
Rjúpnastofninn náði fimm til sex milljónum fugla þegar best lét. Stofninn var aðeins 60 þúsund fuglar fyrir fáum árum. fréttablaðið/gva
„Uppsveiflan byrjaði í fyrra og heldur áfram núna. Þetta er góð ávöxtun síðustu tvö árin og ánægjuleg,“ segir Ólafur K. Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Rjúpnastofninn sýnir mikil batamerki og vöxtur stofnsins takmarkast ekki lengur við einstaka landshluta.

Fækkunarskeið rjúpunnar sem hófst árin 2005/2006 er afstaðið og stofnvöxtur sem náði nær eingöngu til austanverðs landsins í fyrra tekur nú til landsins alls. Meðaltalsaukning fyrir öll talningasvæði rjúpu var 26 prósent tímabilið 2008/2009. Heildarstærð varpstofnsins í vor var 225 þúsund fuglar og veiðistofninn eftir sumarið er talinn vera 810 þúsund fuglar. Þetta er mikill árangur á stuttum tíma því í samanburði við árið 2007 hefur varpstofninn tvöfaldast. Ekki þarf heldur að fara lengra aftur en til áranna 2002/2003 til að finna varpstofn í sögulegu lágmarki sem var þá metinn um 60 þúsund fuglar. Má geta þess að rjúpnastofninn er talinn hafa verið fimm til sex milljónir fugla þegar best lét.

Ólafur segir að þegar uppsveifla hefst í rjúpnastofninum hérlendis þá vari hún í þrjú til fimm ár. „Það er vonandi að sú verði raunin nú, en hrunið er síðan óumflýjanlegt innan þeirrar tíu ára sveiflu sem einkennir þennan stofn og er náttúrulegt fyrirbæri.“

Veiðistjórnun á rjúpu sem nú er viðhöfð er þríþætt. Sölubann, takmörkun veiðidaga og hvatning til veiðimanna um hófsemi. Ólafur telur að sátt hafi náðst um þessa tilhögun og að aldrei verði aftur snúið til veiðihátta á rjúpu sem tíðkaðist lengi. „Ég held að það verði ekki snúið til baka. Það sem þá ól á græðginni var markaður með fuglinn. Þá gátu menn sameinað skemmtilega útiveru og gróðavonina. Fyrir 2002 tíðkuðust blóðug fjöldadráp oft á tíðum sem ég trúi ekki að verði nokkurn tíma leyfð aftur.“

Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands, gerir viðsnúning rjúpnastofnsins að umtalsefni í nýjasta tölublaði félagsins. Þar segir hann að því verði ekki á móti mælt að veiði hefur áhrif á rjúpnastofninn, en lengi var því haldið fram að svo væri ekki. Áhrifin séu lítil á heildarstofninn en hafi meiri áhrif næst þéttbýli. Þetta sýni rannsóknir í nágrannalöndum.

Hann samsinnir Ólafi um að veiðistjórnun á rjúpu sé í góðum farvegi, sem megi þakka samstarfi stjórnvalda og veiðimanna, og að siðbót veiðimanna sé staðreynd.

svavar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×