Íslenski boltinn

Jóhann: Tökum einn leik í einu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann B. Guðmundsson í búningi GAIS frá Svíþjóð.
Jóhann B. Guðmundsson í búningi GAIS frá Svíþjóð.

Jóhann Birnir Guðmundsson skoraði sigurmark Keflavíkur í leiknum gegn Fram í dag og hann var að vonum kátur með úrslitin.

"Það er alltaf gaman að skora sigurmarkið þó svo að hafi ekki verið sérlega fallegt. Þetta var baráttuleikur og lítið um færi og erfitt að spila. Framararnir spila ekkert ósvipað og við og það var í raun dæmigert að markið skyldi koma eins og það kom, upp úr engu,"

Framarar höfðu betur í leik liðanna í síðustu umferð mótsins í fyrra, og tapið í þeim leik varð til þess að Keflavík missti af Íslandsmeistaratitlinum. Jóhann sagði það samt ekki hafa verið ofarlega í huga manna fyrir þennan leik.

"Maður hefur aðallega heyrt í fólki fyrir utan liðið tala um leikinn í fyrra, segja að við yrðum að vinna í dag til að hefna fyrir það tap. En við töpuðum fyrir fleiri liðum í fyrra þannig að tapið gegn Fram var ekkert sérstaklega í huga okkar núna," sagði Jóhann.

Keflvíkingar hafa byrjað mótið ágætlega og eru með 9 stig, einu stigi á eftir KR sem er á toppnum.

"Við tökum einn leik fyrir í einu hér í Keflavík. Við erum ekki með eins breiðan hóp og í fyrra en gæðin eru alveg jafn mikil í byrjunarliðinu. Það er enginn leikur léttur í þessari deild og Stjarnan hefur sýnt að það geta allir unnið alla í þessari deild," sagði Jóhann Birnir í samtali við Vísi í leikslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×