Íslenski boltinn

Haukur Ingi: Þetta er hundfúlt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Haukur Ingi í leik gegn Fylki.
Haukur Ingi í leik gegn Fylki. Mynd/Valli

„Það er góð spurning hvað nákvæmlega gerðist hjá okkur í seinni hálfleik. Við vorum einu marki yfir og lentum í því síðast að vera yfir í hálfleik gegn Blikum en fengum svo fjögur mörk í andlitið. Kannski sat það í okkur og gerði það að verkum að við duttum of aftarlega og ætluðum að verja forskotið," sagði Keflvíkingurinn Haukur Ingi Guðnason eftir 1-1 jafnteflisleik Keflavíkur og Stjörnunnar.

„Að sama skapi má ekki taka það af Stjörnunni að þeir mæta dýrvitlausir og ætla sér eitthvað út úr leiknum. Þeir gerðu sitt vel. Við duttum of aftarlega í síðari hálfleik og náðum ekki að koma okkur fram þegar við fengum boltann," sagði Haukur Ingi.

„Það er auðvitað hundfúlt að fá ekki þrjú stig þegar maður hélt að við værum að sigla þessu í land. Sumir segja kannski að þetta sé verðskuldað," sagði Haukur Ingi og bætti við að það hefði verið allt önnur staða ef liðið hefði nýtt færin í fyrri hálfleik og leitt með fleiri mörkum eins og Keflavík hefði átt að gera.

Það eru smá meiðslavandræði á Keflvíkingum en Haukur var haltrandi, Jóhann Birnir lék ekki í kvöld vegna meiðsla líkt og Hólmar Örn Rúnarsson. Svo er Magnús Þorsteinsson einnig að glíma við meiðsli.

„Það eru smá vandræði á okkur og það er gott að fá smá hvíld núna fyrir næstu törn," sagði Haukur Ingi Guðnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×