Íslenski boltinn

Atli: Við munum finna réttu línuna og ná árangri

Ómar Þorgeirsson skrifar
Atli Eðvaldsson.
Atli Eðvaldsson.

Valur staðfesti í dag ráðningu Atla Eðvaldssonar sem þjálfara liðsins og mun hann stýra Hlíðarendaliðinu út yfirstandandi leiktíð. Atli kvaðst í samtali við Vísi vera gríðarlega spenntur að takast á við áskorunina.

„Þetta kom mjög fljótt upp og ég er búinn að vera á fleygiferð síðustu fimm klukkutímana en þetta er nú komið í höfn og ég er gríðarlega sáttur og fullur tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni. Ég hefði í raun átt að vera kominn í þetta starf fyrir löngu síðan en betra er seint en aldrei og með góðum stuðning er ég sannfærður um að við getum gert góða hluti það sem eftir lifir tímabils," segir Atli.

Atli kveðst ekki vera búinn að ákveða hvern hann fær með sér sem aðstoðarþjálfara en er vel inni í hlutum hjá Val og þekkir flesta strákana sem eru að spila með liðinu. Hann vonast til þess að kveikja neistann hjá þeim aftur.

„Ég spilaði bara með Val þegar við vorum að vinna og það er metnaðurinn sem hefur verið til staðar hjá félaginu og á að vera til staðar og ég vonast til þess að koma þeim skilaboðum til leikmannannna. Ég þekki þessa stráka og veit hverjir þeir eru og ég er sannfærður um að í sameiningu munum við finna réttu línuna til þess að ná árangri," segir Atli vongóður að lokum.

Nánara viðtal birtist við Atla í Fréttablaðinu á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×