Erlent

Sotomayor komst í gegnum nálaraugað

Sonia Sotomayor
Sonia Sotomayor MYND/AP

Hæstaréttardómarar í Bandaríkjunum fengu nýjan vinnufélaga í gærkvöldi þegar útnefning Soniu Sotomayor í embætti var samþykkt af öldungadeild þingsins.

Það er forseti Bandaríkjanna sem útnefnir dómarann sem síðan þarf að gangast undir ítarleg viðtöl hjá öldungadeildarþingmönnum sem kjósa síðan um hvort dómarinn teljist hæfur til að gegna þessari metorðastöðu.

Demókratar hafa meirihluta í öldungadeildinni og því þurfti ekki að koma á óvart að hún var kjörin nokkuð örugglega en 68 samþykktu útnefninguna og 31 rebúblikani var á móti. Níu rebúblikanar greiddu henni atkvæði sitt. Sotomayor er 55 ára gömul og verður númer 111 í röð hæstaréttardómara.

Hún er aðeins þriðja konan til að hljóta þennan heiður auk þess sem hún verður fyrsti dómarinn af rómönskum ættum. Barack Obama lýsti því yfir í nótt að hann væri djúpt snortinn af samþykki öldungadeildarinnar. Sotomayor er af Puerto Ricönskum uppruna en fædd og alin upp af einstæðri móður í Bronx hverfinu í New York.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×