Erlent

Yfirgáfu salinn undir ræðu forseta Írans

Fjölmargir sendifulltrúar gengu fyrir stundu út af fundi á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttafordóma sem haldin er í Genf í Sviss. Þetta gerðist undir ræðu Mahmouds Ahmadinejads forseta Írans.

Í ræðunni fordæmdi hann Ísraelsstjórn og aðgerðir henna og sagði ráðamenn í landinu kynþáttahatara. Fyrirfram var búist við að ræða yrði umdeild á ráðstefnu þar sem reyna átti að herða á sameiginlegri baráttu ríkja heims gegn fordómum.

Bandaríkin og Ísrael eru meðal ríkja sem sendu ekki fulltrúa á ráðstefnuna vegna deilna um drög að lokaályktun hennar. Einnig gagnrýndu ríkin að Ahmadinejad væri boðið að ávarpa ráðstefnuna og var búist við að hann myndi ráðast gegn Ísraelum enda hefur Íransforseti sagt að helför gyðinga hafi ekki átt sér stað og sagt að eyða yrði Ísraelsríki.

Samkvæmt upplýsingum hjá utanríkisráðneytinu gekk íslenska sendinefndin ekki út af fundinum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×