Innlent

Mátti banna rekstur einkastofu

Landspítalinn þarf að greiða lækninum 1,8 milljónir í vangoldin laun, auk vaxta.Fréttablaðið/hari
Landspítalinn þarf að greiða lækninum 1,8 milljónir í vangoldin laun, auk vaxta.Fréttablaðið/hari
Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Landspítalanum hafi verið heimilt að banna yfirlæknum með stjórnunar­skyldur á spítalanum að reka einnig sjálfstæðar læknastofur samhliða störfum sínum fyrir spítalann. Hæstiréttur sýknaði í gær spítalann af kröfu yfirlæknis um viðurkenningu á því að spítalanum hafi verið þetta óheimilt.

Hæstiréttur dæmdi lækninum hins vegar 1,8 milljónir í vangoldin laun frá spítalanum með dráttar­vöxtum. Sú krafa var til komin vegna þess að Landspítalinn lækkaði einhliða í heimildarleysi starfshlutfall hans um tuttugu prósent eftir að nýr kjarasamningur tók gildi 1. febrúar 2006.

Læknirinn hafði þegið 80 prósenta laun fyrir fullt starf hjá spítalanum frá því í september 2002, á grundvelli bókunar í kjarasamningi frá því ári. Þar var læknum sem einnig rækju einkastofu gert að lækka annaðhvort starfshlutfall sitt eða þiggja fyrir störfin 20 prósentum lægri laun. Læknirinn valdi aldrei á milli þessara kosta og af þeirri ástæðu var talið að bókunin gæti ekki haft áhrif á kjör hans eftir að nýr kjarasamningur tók gildi árið 2006. Sambærilegt ákvæði var þar ekki að finna. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×