Innlent

Þingmaður orðaður við formannsframboð í HSÍ

Gunnar Svavarsson sést hér með Kristjáni Þór Júlíussyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Þeir unnu náið saman sem formaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis 2007 til 2009.
Gunnar Svavarsson sést hér með Kristjáni Þór Júlíussyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Þeir unnu náið saman sem formaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis 2007 til 2009. MYND/Anton Brink
Gunnar Svavarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, er orðaður við formannsframboð í Handknattleikssambandi Íslands en ársþing sambandsins fer fram á miðvikudaginn í næstu viku. Gunnar á síður von á því að taka að sér trúnaðarstörf í íþróttahreyfingunni.

Guðmundur Ingvarsson, fráfarandi formaður HSÍ, býður sig fram til forseta Alþjóðlega handknattleikssambandsins á ársþingi þess sem fer fram í byrjun júní. Þegar Guðmundur var endurkjörinn formaður HSÍ í fyrra sagði hann að yfirstandi starfsár yrði hans síðasta sem formaður sambandsins.

Gunnar staðfestir að skorað hafi verið á hann að gefa kost á sér til formanns af þremur íþróttafélögum „Í kjölfar þess að ég mun hætta á Alþingi og sem formaður fjárlaganefndar hafa menn greinilega áhyggjur af því að mér verði ekkert úr verki. Ég kann að meta það og mun hugsa hlýlega til félaga minna innan handknattleikshreyfingarinnar," segir þingmaðurinn.

Gunnar á síður von á því að hann taki að sér trúnaðarstörf í íþróttahreyfingunni á þessu stigi. Hvað svo sem síðar verður, eins og hann orðar það.

Undanfarin áratug hefur Gunnar komið að starfi íþróttafélaganna í Hafnarfirði. Hann sat meðal annars í stjórn Íþróttafélags Hafnarfjarðar í áratug og þar af sem formaður um fimm ára skeið á árunum 1995 til 2000. Gunnar er nú formaður byggingarnefndar FH og byggingarnefndar Hauka.

Gunnar sækist ekki eftir endurkjöri í þingkosningunum 25. apríl en hann var kjörin á þing í kosningunum í maí 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×