Innlent

Vonar að tengillinn sé kominn á sinn stað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Freyr Eyjólfsson var með Ástþór Magnússon í viðtali í Síðdegisútvarpinu í gær. Mynd/ RÚV.
Freyr Eyjólfsson var með Ástþór Magnússon í viðtali í Síðdegisútvarpinu í gær. Mynd/ RÚV.
Freyr Eyjólfsson, dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu, átti viðtal við Ástþór Magnússon í gær sem þegar hefur vakið mikla athygli ef marka má fyrstu viðbrögð manna. Í viðtalinu sakaði Ástþór Ríkisútvarpið um ritskoðun og hreinlega heimtaði meiri umfjöllun um stefnumál Lýðræðishreyfingarinnar, þess stjórnmálaflokks sem hann fer fyrir. Þá gerði Ástþór miklar athugasemdir við kosningavef Ríkisútvarpsins.

Freyr segir í samtali við Vísi að viðtalið hafi þó ekki verið óvenju erfitt. „Nei, nei. Ég þurfti að spyrja svo lítið. Þetta var nú ekki erfitt viðtal vegna þess að ég komst svo sjaldan að. Þetta var eiginlega bara einræða Ástþórs Magnússonar," segir Freyr.



Skemmtilegt og hresst viðtal


Og Freyr segir að sér hafi liðið ágætlega í viðtalinu. „Þetta var svona skemmtilegt og hressilegt viðtal. Það er jú skylda Ríkisútvarpsins að gæta jafnræðis. Við tökum viðtöl við alla frambjóðendur og fulltrúa allra flokka. Ástþór Magnússon er engin undantekning þar. Þó hann haldi því fram að það sé meiriháttar ritskoðun í gangi að þá held ég að það sé nú stór misskilningur hjá honum," segir Freyr.

Freyr segir að fljótlega eftir að Ástþór tilkynnti um framboð sitt hafi honum verið boðið í þáttinn. Honum, ásamt öðrum frambjóðendum, hafi verið boðið að svara ákveðnum lykilspurningum. „Svo kom hann í gær og þá var hann í þessum hasarslag við kjörstjórnirnar. Þetta var svolítið mál dagsins. Það rann út frestur í gær til að skila inn listum og hann var ekki alveg búinn að græja þá og svo fékk hann undanþágu. Við vorum svona að ræða þetta," segir Freyr.

Gaman þegar menn takast á



Freyr segir að sér finnist bara gaman þegar menn takist á og hafi skoðanir. „Og mönnum er algerlega frjálst að segja sínar skoðanir og hafa sínar skoðanir á Ríkisútvarpinu og hafa sínar skoðanir á kjörstjórnum landsins," segir Freyr. Hann bendir á að það hafi alltaf verið frjáls skoðanaskipti í Síðdegisútvarpinu. „En þetta var óvenju hresst viðtal. Það má alveg segja það," segir Freyr.



Vonar að tengillinn sé kominn á sinn stað


Óhætt er að segja að Ástþór hafi verið óhress yfir því að tengil á vefsíðu Lýðræðishreyfingarinnar væri ekki að finna á kosningavef Ríkisútvarpsins. Aðspurður segist Freyr vona að tengillinn sé kominn á sinn stað. „Ég vona að vefstjórn Ríkisútvarpsins hafi gengið í málið eftir þáttinn. Ég vona að þeir hafi lagað það enda átti hann að vera á staðnum eins og aðrir linkar," segir Freyr.






Tengdar fréttir

„Hvar er linkurinn á Lýðræðishreyfinguna?“

Ástþór Magnússon frambjóðandi fyrir Lýðræðishreyfinguna í komandi alþingiskosningum var í viðtali hjá Frey Eyjólfssyni í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í dag. Þar fór hann mikinn og sakaði Rúv um að vera ritskoðaður fjölmiðill. Meðal annars spurði hann útvarpsmanninn hversvegna ekki væri linkur á framboð Lýðræðishreyfingarinnar á kosningavef Ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×