Innlent

Miðjumenn segjast beittir rangfærslum

Breytingar urðu á áformum um skipulag miðbæjarins á Selfossi og hefur sveitarfélagið ekki getað afhent umsaminn byggingarrétt á svæðinu.Fréttablaðið/E. Ól.
Breytingar urðu á áformum um skipulag miðbæjarins á Selfossi og hefur sveitarfélagið ekki getað afhent umsaminn byggingarrétt á svæðinu.Fréttablaðið/E. Ól.

„Sérlega ámælisvert er að kjörinn fulltrúi í bæjar­stjórn Árborgar komi fram með þessum hætti þar sem öll gögn málsins liggja fyrir og eru honum kunn,“ segir Frans Jezorsky, einn eigenda Miðjunnar ehf., um oddvita minnihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Árborgar.

Frans telur oddvita minnihlutans, Eyþór Arnalds, vísvitandi fara með rangt mál um stöðu lóðaviðskipta Miðjunnar við Árborg. Á árinu 2006 samdi Miðjan við sveitar­félagið um kaup á byggingarrétti fyrir um 8.800 fermetra í miðbæ Selfoss. Söluverðið var 45 milljónir króna. Á bæjarráðsfundi í síðustu viku lagði Eyþór til að milljónirnar 45 yrðu innheimtar enda væri upphæðin löngu gjaldfallin. Frans segir það rangt hjá Eyþóri.

„Samkvæmt samningi milli aðila er umsamið að Miðjan greiði kaupverð byggingarréttarins þegar deiliskipulag fyrir svæðið hefur verið samþykkt,“ segir Frans, sem bendir á að á árinu 2007 hafi Árborg ákveðið að deiliskipuleggja einungis hluta miðbæjarsvæðisins.

„Deiliskipulagið gerir því ráð fyrir minna byggingarmagni heldur en áformað var þegar samningur milli aðila var gerður árið 2006. Það hafði í för með sér að sveitarfélagið hefur ekki enn getað afhent Miðjunni umræddan byggingarrétt. Kaupverð byggingarréttarins gjaldfellur því ekki fyrr en sú afhending hefur farið fram.“

Frans kveðst telja vinnubrögð minnihluta sjálfstæðismanna bera vott um þekkingarleysi og vankunnáttu á skipulagsmálum. „Þetta veldur vonbrigðum á þessum tímum þar sem ábyrg framkoma stjórnmálamanna er grunnforsenda þess uppbyggingarstarfs sem fram undan er hér á landi,“ segir hann.

Ragnheiður Hergeirsdóttir bæjar­stjóri segir bæinn ekki hafa getað afhent Miðjunni umsaminn byggingarrétt og því sé kaupverðið ekki gjaldfallið. „Við eigum hins vegar í viðræðum við Miðjuna um útfærslu á deiliskipulaginu,“ segir Ragnheiður.

Eyþór Arnalds segir hins vegar að lögformlegu ferli sé löngu lokið og að ekkert sé eftir sem varði samninginn nema greiða bæjarfélaginu hina gömlu skuld: „Það virðist hins vegar eins og bæjaryfirvöld hafi engan áhuga á að innheimta þessar 45 milljónir en geti ekkert borið fyrir sig nema eigin slóðaskap. Á sama tíma eru íbúar rukkaðir af Intrum vegna þjónustugjalda en þessi stóri aðili látinn skulda án þess að skuldin sé innheimt með einum eða neinum hætti.“

gar@frettabladid.is

Frans Jezorsky
Eyþór Arnalds


Ragnheiður Hergeirsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×