Innlent

Vilja séra Gunnar ekki aftur

Séra Gunnar vill skaða- og miskabætur fyrir að hafa verið settur í tímabundið leyfi á meðan mál hans var til meðferðar hjá yfirvöldum.
Séra Gunnar vill skaða- og miskabætur fyrir að hafa verið settur í tímabundið leyfi á meðan mál hans var til meðferðar hjá yfirvöldum.

Sóknarnefnd Selfosskirkju hefur ritað biskupi Íslands bréf og óskað eftir því að séra Gunnar Björnsson snúi ekki aftur til starfa við kirkjuna. Hæstiréttur sýknaði séra Gunnar nýverið af ákæru um kynferðislega áreitni gegn sóknarbörnum sínum og hefur biskup tjáð honum að hann geti hafið störf að nýju 1. maí.

Eysteinn Ó. Jónasson, formaður nefndarinnar segir að bréfið hafi raunar verið ritað og sent biskupi í desember síðastliðnum eftir að sýknudómur féll í héraði. Það hafi verið merkt trúnaðarmál og beðið um að það yrði ekki opnað nema ef Hæstiréttur sýknaði Gunnar einnig.

Séra Gunnar játaði því við meðferð málsins að hafa strokið stúlkunum og kysst þær í leit að andlegum styrk. Dómurinn komst að því að hann hefði þó ekki brotið lög. „Okkur fannst þetta samt feikinóg til þess að það væri ekki æskilegt að hann væri að koma þarna aftur í hóp barnanna," segir Eysteinn. Málinu hafi lyktað þannig að orð stæði á móti orði og þá yrði að leyfa börnunum að njóta vafans.

Biskup hefur ekki svarað bréfi sóknarnefndarinnar. Verði ekki fallist á beiðni nefndarinnar á Eysteinn von á því að málinu verði skotið til úrskurðarnefndar Þjóðkirkjunnar. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×