Innlent

Vilja Íslendingana í gæsluvarðhald vegna mansals

Telma Tómasson skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum ætlar að óska eftir gæsluvarðhaldúrskurði yfir þremur íslenskum karlmönnum, sem handteknir voru í gær grunaðir um tengsl við skipulagðan glæpahring. Fimm Litháar eru einnig í haldi í tengslum við mansálsmál og verður óskað eftir framlengingu á gæsluvarðhaldi þeirra. Brotastarfsemi Íslendinganna og Litháanna er talin tengjast.

Umfangsmiklar aðgerðir lögreglunnar á Suðurnesjunum, í samvinnu við þrjú önnur lögregluembætti, í gær leiddi til handtöku 5 Íslendinga, þriggja karla og tveggja kvenna um fertugt. Gerð var húsleit á nokkrum stöðum, meðal annars á heimilum og í fyrirtækjum. Fjórir voru handteknir síðdegis og ein kona til viðbótar í gærkvöldi. Einnig var lagt hald á bókhaldsgögn, skjöl og annað til frekari rannsóknar. Annari konunni var sleppt eftir yfirheyrslur, hinni verður væntanlega sleppt í dag.

Yfirheyrslur yfir fólkinu standa enn, en lögreglan hyggst óska eftir að þrír íslenskir karlmenn verði úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald.

Upphaf málsins má rekja til komu ungrar litháískrar konu til landsins fyrir um tíu dögum. Hún lét ófriðlega í flugvélinni og var tekin í vörslu lögreglu við komuna. Grunsemdir um að neyða ætti konuna í vændi hér á landi vöknuðu og voru fimm Litháar handteknir í kjölfarið, grunaðir um að tengjast málinu og vera viðriðnir skipulagðan glæpahóp. Gæsluvarðhaldsúrskurðir yfir þeim öllum renna út í dag, óskað verður eftir framlengingu um viku. Mennirnir hafa allir neitað meintri mansalssök og bera við kunningsskap við stúlkuna.

Mál Íslendinganna og Litháanna eru talin tengjast, en Íslendingarnir sem eru í haldi eru grunaðir um að vera viðriðnir brotastarfsemi af ýmsum toga, meðal annars þjófnaði, fjársvikum og mansali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×