Erlent

Fangar geti flutt til Evrópu

Vilja aðstoð Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, bað ríki Evrópu um aðstoð við að finna föngum í Guantanamo nýjan samastað.Fréttablaðið/AP
Vilja aðstoð Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, bað ríki Evrópu um aðstoð við að finna föngum í Guantanamo nýjan samastað.Fréttablaðið/AP
Bandaríkin vilja hjálp Evrópuríkja við lokun á hinum alræmdu Guantanamo-fangabúðum á Kúbu. Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, óskaði eftir því við fulltrúa Evrópuríkja á miðvikudag að ríkin samþykktu að taka við einhverjum þeirra fanga sem vistaðir hafa verið í Guantanamo og ekki er lengur talin stafa ógn af. „Ég veit að Evrópuríki opnuðu ekki Guantanamo, og að raunar voru margir í þessari heimsálfu andsnúnir búðunum,“ sagði Holder í Berlín á miðvikudagskvöld. „Til að loka Guantanamo verðum við öll að færa fórnir og við verðum að vera tilbúin að taka óvinsælar ákvarðanir,“ sagði Holder enn fremur. Í dag er 241 fangi í Guantanamo-fangabúðunum. Holder sagði bandarísk stjórnvöld hafa samþykkt að sleppa þrjátíu þeirra. Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað að loka skuli Guantanamo innan níu mánaða. Herta Daubler-Gmelin, fyrrverandi dómsmálaráðherra Þýskalands, sagði að landið myndi að öllum líkindum taka við fyrrum föngum frá Guantanamo. Aðrar Evrópuþjóðir hafa einnig tekið vel í að taka við fyrrverandi föngum, þar á meðal Portúgal og Litháen. Frakklandsforseti hefur samþykkt að taka á móti einum fanga. Litið er á það sem táknrænan stuðning. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×