Erlent

Lögreglumenn selja nærföt og snyrta grafir

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
David Ruffley.
David Ruffley. MYND/Telegraph

Dæmi eru um að breskir lögreglumenn selji nærfatnað og dáleiði fólk til að ná sér í nokkur pund aukalega. David Ruffley, skuggaráðherra breska Íhaldsflokksins í löggæslumálum, krefst þess að lögreglumönnum landsins verði bannað að stunda aukavinnu samhliða lögreglustarfinu.

Brögð eru að því í efnahagslægðinni að lögreglumenn næli sér í aukatekjur og nú er svo komið að á fimmta þúsund þeirra hafa með höndum einhvers konar önnur störf. Dæmi eru um að lögreglumenn selji undirfatnað, leiki í sjónvarpsþáttum, stundi dáleiðslu í ýmsum tilgangi, snyrti grafir dauðra og einn leggur meira að segja stund á hrossatannlækningar á frívaktinni.

Ruffley segir þetta ekki ná nokkurri átt, lögreglumaður verði að einbeita sér gjörsamlega að löggæslunni og leyfa engu að dreifa huga sínum. Simon Reed, formaður Landssambands breskra lögreglumanna, heyrir boðskapinn en er ráðinn í að hafa hann að engu. Hann bendir þingmanninum vinsamlega á, að eigi lögreglumenn eingöngu að hafa eitt starf með höndum ætti sú regla kannski að gilda um háttvirta þingmenn líka. Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×