Innlent

Þúsundum nauðgað ár hvert

Á myndinni má sjá frá vinstri Hlín Helgu Guðlaugsdóttur, Björn Inga Hilmarsson, Diljá Ámundadóttur, Þóreyju Vilhjálmsdóttur, Ragnhildi Gísladóttur, fyrrverandi og núverandi meðlimi í stjórn V-dagssamtakanna á Íslandi, og Stefán Inga Stefánsson framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi.  Fréttablaðið/GVA
Á myndinni má sjá frá vinstri Hlín Helgu Guðlaugsdóttur, Björn Inga Hilmarsson, Diljá Ámundadóttur, Þóreyju Vilhjálmsdóttur, Ragnhildi Gísladóttur, fyrrverandi og núverandi meðlimi í stjórn V-dagssamtakanna á Íslandi, og Stefán Inga Stefánsson framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi. Fréttablaðið/GVA
Skipulagðar nauðganir á konum og börnum eru aðför gegn mannréttindum sem alþjóðasamfélagið ætti að beita sér gegn með enn frekari hætti en gert er nú, segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, UNICEF. Stefán kynnti söfnunarátak UNICEF og V-dagssamtakanna til handa fórnarlömbum nauðgana í Austur-Kongó ásamt Diljá Ámundadóttur, formanni V-dagssamtakanna á Íslandi.

Mörg þúsund konum og börnum er nauðgað og misþyrmt í Austur-Kongó ár hvert. Þrátt fyrir að skrifað hafi verið undir friðarsamkomulag stríðandi fylkinga í landinu árið 2003 ríkir enn óöld þar og meðal fórnarlamba eru konur og börn sem eru beitt kynferðisofbeldi.

Í stríðinu og í aðdraganda þess hófust skipulagðar nauðganir og benti Stefán í framsögu sinni á að umfang skipulagðra nauðgana í hernaði hefði vaxið gríðarlega á átakasvæðum undanfarna áratugi og mjög mikilvægt væri að berjast gegn því. Hvergi hefur þeim þó verið beitt með hrottafengnari hætti en í Austur-Kongó og er talið að fórnarlömbin séu mörg hundruð þúsund.

UNICEF hefur starfað að uppbyggingu samfélagsins í Austur-Kongó og unnið að verkefnum sem miða að því að uppræta viðhorf sem stuðla að kynferðisofbeldi, ýta á stjórnvöld til að grípa til árangursríkra aðgerða og bæta lög og lina þjáningar barnungra þolenda á svæðum þar sem ástandið er alvarlegast. Um þúsund þolendur kynferðisofbeldis fá í hverjum mánuði stuðning í gegnum verkefni sem eru styrkt af UNICEF.

Felix Ackebo, sérfræðingur hjá UNICEF í Gomo í austurhluta landsins, segir erfitt að skýra hvers vegna nauðgunum sé beitt í svo miklum mæli í landinu. Að einhverju leyti eigi það þó menningarlegur rætur. Nauðganir hafi verið og séu enn notaðar sem vopn í átökum. Mikilvægt sé að ná tökum á því ástandi og uppræta þá fordóma sem fórnarlömbin mæti í samfélaginu. Hann segir að væntanlega muni taka mörg ár að ná tökum á ástandinu. „En vonin er alltaf til staðar.“

Fyrir tveimur árum hófst samstarf alþjóðlegu V-dagssamtakanna og UNICEF til styrktar fórnarlömbum kynferðisglæpa í Austur-Kongó. Meðal þess sem söfnunarfé hefur verið notað til er uppbygging Ánægjuborgarinnar (City of Joy) sem er athvarf fyrir þolendur nauðgana í Bukavu-héraði í Austur-Kongó en þar fá konur þjálfun í ýmsum hagnýtum verkum til að efla sjálfstraust þeirra. Einnig hafa V-dagssamtökin og UNICEF styrkt Panzi-spítalann í sama héraði þar sem konur fá læknishjálp í kjölfar nauðgana. Þær eru oft mjög illa útleiknar og hefur verið misþyrmt í kringum kynfærin með hryllilegum hætti.

„Það er ótrúlegt hvað hægt er að byggja upp konur sem hefur verið misþyrmt kynferðislega. Það er alltaf von,“ segir Stefán, sem sjálfur hefur kynnst sambærilegu uppbyggingarstarfi í Sierra Leone.

sigridur@frettabladid.is
Unnið úr áfallinu Fórnarlömb kynferðisglæpa í Austur-Kongó á bænastund í kapellu í athvarfi í borginni Goma í austurhluta landsins. Nordicphotos/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×