Erlent

Óður byssumaður myrti tíu manns í Alabama

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Lögregla og sjúkralið á vettvangi í Samson þar sem maðurinn skaut hóp fólks til bana í hjólhýsi.
Lögregla og sjúkralið á vettvangi í Samson þar sem maðurinn skaut hóp fólks til bana í hjólhýsi. MYND/WDHN

Að minnsta kosti 10 manns liggja í valnum eftir skotárás óðs manns í tveimur smábæjum í Alabama í gær.

Lögregla í Samson og Geneva í Alabama-ríki getur með engu móti skýrt hvað manninum gekk til en nú er unnið að því að finna út hvort hann þekkti einhver fórnarlambanna. Sjálfur er hann ekki til frásagnar þar sem blóði drifin slóð hans endaði með því að hann skaut sjálfan sig til bana í verksmiðju í Geneva.

Þá hafði maðurinn skotið sjö til bana, þar af eitt barn, í bænum Samson áður en hann settist upp í bifreið sína, vopnaður M16-hríðskotariffli, og ók af stað. Maðurinn skaut á allt sem fyrir varð á leið sinni til Geneva, meðal annars varð lögreglubifreið fyrir sjö skotum en lögreglumaðurinn í henni slapp með skrámur eftir brot úr rúðunum. Tveir aðrir vegfarendur voru ekki svo heppnir en þeir létust báðir eftir að maðurinn skaut á þá úr bíl sínum.

Í Geneva óku lögreglumann á bíl mannsins en hann hljóp þá út úr honum og inn í járnvöruverksmiðju. Þaðan skaut hann um 30 skotum í átt að lögreglunni og særði einn lögreglumann áður en hann beindi byssunni að sjálfum sér. Lögregla óttast að fleiri lík eigi eftir að finnast við rannsókn málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×