Innlent

Þakka guði fyrir að við vöknuðum ekki

Brynja segir innbrotsþjófinn greinilega hafa tekið sinn tíma inni í íbúðinni. fréttablaðið/valli
Brynja segir innbrotsþjófinn greinilega hafa tekið sinn tíma inni í íbúðinni. fréttablaðið/valli
„Þetta er nánast alveg eins og innbrotið sem Fréttablaðið sagði frá um síðustu helgi. Það er brotist inn um miðja nótt, allt verðmætt tekið og svo keyrt burt á bílnum,“ segir Brynja Þórhallsdóttir, íbúi í Reynihvammi í Hafnarfirði. Brotist var inn í íbúð Brynju, þar sem hún svaf ásamt fimm mánaða gamalli dóttur sinni, á þriðjudagsnótt. Þaðan var meðal annars stolið dýrri myndavél, gjaldeyri, vegabréfum og glænýjum Lexus-jeppa. Fréttablaðið greindi á laugardag frá svipuðu innbroti í Ásahverfi í Hafnarfirði. Alls hefur því verið tilkynnt um fimm innbrot á sömu slóðum í Hafnarfirði á einni viku.

Brynja segir það hafa verið óhugnanlegt að vakna og uppgötva að farið hefði verið um íbúðina um nóttina. „Ég þakka bara guði fyrir að við vöknuðum ekki. Ég vil ekki hugsa til þess sem hefði getað gerst ef ég hefði farið fram og lent í klónum á þessum aðilum.

Það er ótrúlegt hvernig þetta þjóðfélag okkar er orðið. Nú vona ég bara að allt heiðarlega fólkið standi saman til að loka á þessa menn,“ segir Brynja.

Ólafur G. Emilsson, stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði, segir að málin fimm séu rannsökuð með tilliti til þess hvort þau tengist innbyrðis. Játningar hafi fengist við þremur innbrotanna, en ekki sé enn vitað hvort hin tvö tengist þeim.

„Í þeim tilfellum sem játningar hafa komið fram er um að ræða ungt íslenskt vandræðafólk sem á í basli með áfengi og önnur vímuefni,“ segir Ólafur G. Emilsson.- kg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×