Innlent

Mál séra Gunnars í höndum biskups

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Eysteinn Jónasson, formaður sóknarnefndar Selfosskirkju.
Eysteinn Jónasson, formaður sóknarnefndar Selfosskirkju.
„Við fengum það út úr úrskurðinum sem við vildum í rauninni, en við vildum láta kanna hvort þetta bryti ekki gegn siðareglum Prestafélagsins,“ segir Eysteinn Jónasson, formaður sóknarnefndar Selfosskirkju, um niðurstöðu úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar í máli séra Gunnars Björnssonar. Eysteinn segir málið nú vera í höndum biskups.

Séra Gunnar var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum úr söfnuði sínum. Málið fór fyrir héraðsdóm og Hæstarétt þar sem hann var sýknaður. Þó var talið sannað að Gunnar hefði sýnt þá háttsemi sem ákært var fyrir, hún var hins vegar ekki talin falla undir kynferðislega áreitni né ósiðlegt athæfi. Gunnar hefur undanfarin tvö ár verið í leyfi frá störfum vegna málsins.

Fram kemur í niðurstöðu úrskurðarnefndar að Gunnar hafi gerst sekur um ótvírætt siðferðisbrot en ekki agabrot. Nefndin hafnaði kröfu sóknarnefndar um að Gunnar fái ekki að snúa aftur til starfa í Selfosskirkju sem sóknarprestur.

Eysteinn segir að sóknarnefndin hafi aldrei reiknað með því að úrskurðarnefndin myndi sjá til þess að séra Gunnar kæmi ekki aftur. Úrskurðarnefndin hafi ekki slík völd heldur gefi hún biskup ráðgefandi álit. Málið sé nú í höndum biskups en málsaðilar hafa þrjár vikur til að áfrýja úrskurði úrskurðarnefndar.

Sóknarnefnd Selfosskirkju kemur næst saman til fundar á fimmtudag og verður úrskurðurinn ræddu á þeim fundi. Eysteinn segir sóknarnefndina hafa verið einhuga í að óska eftir áliti úrskurðarnefndar um hvort siðferðisbrot hafi verið að ræða.




Tengdar fréttir

Séra Gunnar hvorki átti né mátti

Gunnar Björnsson sýndi af sér háttsemi sem prestur hvorki á né má sýna af sér gagnvart sóknarbörnum. Þetta kemur fram í niðurstöðu úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar í máli Gunnars sem hefur verið í leyfi frá störfum sem sóknarprestur á Selfossi eftir að hann var kærður fyrir tæpum tveimur árum fyrir kynferðisbrot gagnvart ungum stúlkum sem voru sóknarbörn hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×