Innlent

Ráðið aftur ef verkefnum fjölgar

Jarðboranir Ef undirbúningur framkvæmda sem boðaðar eru í stöðugleikasáttmálanum fer að hefjast eru líkur á að þrjátíu starfsmenn sem sagt var upp í gær fái endurráðningu.
Jarðboranir Ef undirbúningur framkvæmda sem boðaðar eru í stöðugleikasáttmálanum fer að hefjast eru líkur á að þrjátíu starfsmenn sem sagt var upp í gær fái endurráðningu.

Þrjátíu starfsmönnum Jarðborana hf. var sagt upp störfum í gær. Uppsagnirnar eru sagðar liður í nauðsynlegum samdráttaraðgerðum. Verkefnum Jarðborana hf. hafi fækkað verulega og tafir á boðuðum stórframkvæmdum hafi neikvæð áhrif á stöðu fyrirtækisins.

Starfsmönnum verður boðin endur­ráðning ef óvissu léttir um verkefnastöðu fyrirtækisins.

„Við erum að segja upp mjög hæfu starfsfólki með sérhæfða reynslu," segir Bent Einarsson forstjóri í yfirlýsingu. „Þetta er gott fólk sem við viljum ekki missa og það er vissulega sárt ef við missum það varanlega frá okkur. Ef svo fer tapast hluti þeirrar þekkingar og forskots sem við höfum í dag í jarðvarmanýtingu og aðrar þjóðir hafa svo mikinn áhuga á."

Eftir uppsagnirnar starfa um 150 manns hjá fyrirtækinu, þar af um fjörutíu við boranir á Azoreyjum en því verkefni á að ljúka á næsta ári. Í tilkynningu fyrirtækisins kemur fram að uppsagnirnar hafi verið nauðsynlegar þótt verksamningar geri ráð fyrir fullri nýtingu á borum fram til ársins 2012.- pg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×