Fótbolti

Hollendingar og Ítalir varkárir eftir dráttinn

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Bert van Marwijk.
Bert van Marwijk. Nordicphotos/GettyImages
Það þarf ekki að koma á óvart að allir landsliðsþjálfarar sem tjá sig um dráttinn á HM í Suður-Afríku eru fullir virðingar og varkárni eftir dráttinn í dag. Það er líka eðlilegt þar sem allt getur gerst á stóra sviðinu.

Einn þeirra er Bert van Marwijk þjálfari Hollands sem er í riðli sem gæti orðið einn sá allra skemmtilegasti í keppninni, ásamt Dönum, Japan og Kamerún.

„Þetta er hættulegur riðill og það má ekki vanmeta neinn andstæðing," sagði þjálfarinn við hollenska fjölmiðla. „Danir unnu sinn riðil þar sem þeir voru í riðli með Portúgal, Ungverjalandi og Svíþjóð, þeir eru því mjög sterkir."

„Við unnum Japan nýverið 3-0 í æfingaleik, en það var alls ekki auðveldur leikur og úrslitin gefa ekki alveg rétta mynd af leiknum. Ég tel Kamerún svo með einu af þremur bestu þjóðunum í Afríku," sagði van Marwijk.

Marcelo Lippi þjálfari Ítalíu, sem er í riðli með Paragvæ, Nýja-Sjálandi og Slóvakíu, var sáttur með sinn riðil. „Því meira sem þú einblínir á auðveldu liðin, því erfiðara verður þetta. Við verðum að undirbúa okkur vel og þekkja þessi lið vel," sagði Lippi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×