Innlent

Lækkunin setur fjármögnun framkvæmda í uppnám

Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar.
Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar.
Lækkun á lánshæfismati Orkuveitu Reykjavíkur niður í ruslflokk setur fjármögnun framtíðar framkvæmda í uppnám. Þetta segir forstjóri Orkuveitunnar. Þetta hefur þó ekki áhrif á lán Evrópska fjárfestingabankans til orkuveitunnar.

Lánsmatsfyrirtækið Moodys lækkaði lánshæfismat íslenska ríkisins um tvo flokka í gær. Ákvörðunin hefur meðal annars haft þær afleiðingar að lánshæfismat Landsvirkjunar var einnig lækkað um tvo flokka.

Orkuveita Reykjavíkur var hins vegar lækkuð niður í ruslflokk. Moddys byggir ákvörðun sína á þeirri óvissu um hvort stjórnvöld geti staðið við bakið á fyrirtækinu.

Þá kemur einnig fram að veiking krónunnar hafi leitt til vaxandi skuldabyrða Orkuveitunnar en fyrirtækið er að mestu fjármagnað í erlendri mynt. Tekjur eru hins vegar að mestu í íslenskum krónum.

Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar, segir að þetta séu slæm tíðindi en á ekki von á því að þetta hafi mikil áhrif á rekstur fyrirtækisins.

„Þetta hefur engin áhrif á þau lán sem við höfum þegar tekið. Ég geri heldur ekki ráð fyrir því að þetta hafi nein áhrif á þau lán sem við erum að taka núna eða það sem við erum að frá Evrópska fjárfestingarbankanum," segir forstjórinn.

Hjörleifur segir þetta þó vera slæmar fréttir. „Þetta mun ekki hafa neinar afleiðingar fyrir okkur til skamms tíma en þetta eru slæmar fréttir. Það gæti verið erfiðara að fá fjármagn í framkvæmdir í framtíðinni."


Tengdar fréttir

Moody´s segir óvissu um getu stjórnvalda til að styðja OR

Lánsmatsfyrirtækið Moody´s segir í áliti sínu um nýtt lánshæfismat sitt á Orkuveitu Reykjavíkur (OR) að lækkunin á matinu niður í rusl-flokk sé meðal annars vegna óvissu um hvort stjórnvöld geti staðið við bakið á fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×