Erlent

Risastórar virkjanir hrekja fólk úr landi

Í júní síðastliðnum fór þessi hópur Karena frá Búrma til Taílands. nordicphotos/AFP
Í júní síðastliðnum fór þessi hópur Karena frá Búrma til Taílands. nordicphotos/AFP

Áform stjórnvalda í Búrma um að reisa tvær stórar stíflur ógna fólki af Karenþjóðinni, sem í meira en sex áratugi hefur barist fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis við landamæri Taílands.

Jafnt mannréttindasamtök sem umhverfissamtök hvetja stjórnvöld í Taílandi, og reyndar einnig í Kína, til að hætta við þátttöku í þessum virkjanaframkvæmdum.

Kínversk og taílensk fyrirtæki munu taka þátt í framkvæmdunum, en orkan verður að mestu seld til Taílands.

Endanleg ákvörðun hefur þó ekki verið tekin, en búist er við að skrifstofa forsætisráðherra Taílands sendi frá sér skýrslu síðar í mánuðinum.

Salvínfljót er 2.400 kílómetra langt og á upptök í Kína, þar sem það heitir Nú, en rennur síðan í gegnum Búrma, að hluta meðfram landamærunum að Taílandi. Stíflurnar tvær, Hatgyi og Tasang, eru á landssvæði þar sem Karenar búa. Tasang-virkjunin yrði ein sú stærsta í Suðaustur-Asíu, með framleiðslugetu upp á rúmlega sjö þúsund megavött, en Hatgyi-virkjunin á að geta framleitt 1.360 megavött.

Árið 2007 var formlega hafist handa við Tasang-stífluna, en framkvæmdum var síðan frestað og hafa enn ekki hafist.

„Bygging stíflnanna nú myndi valda gríðarlegu umhverfistjóni, auk þess sem Karenþjóðin færi á vergang,“ sagði David Tarckabaw, varaforseti Þjóðarbandalags Karena, stjórnmálaafls sem jafnframt rekur eigin uppreisnarher. „Þúsundir gætu flúið yfir til Taílands.“

Karenar eru rúmlega sjö milljón manna þjóð, sem hefur áratugum saman sætt ofsóknum af hálfu herforingjastjórnarinnar í Búrma. Stjórnin hefur eflt mjög herafla á svæðinu, einkum á stöðunum þar sem virkja á. Ásakanir hafa borist um að hermennirnir brjóti mannréttindi á íbúunum, meðal annars hafi hundruðum kvenna verið nauðgað í nágrenni hinnar fyrirhuguðu Tasang-stíflu.

Um hálf milljón manna hefur þegar hrakist frá heimilum sínum á þessum slóðum, bæði vegna virkjanaáforma og vegna almennra átaka á svæðinu. Reglulega fara hópar fólks yfir landamærin til Taílands. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×